Ofbeldi í ýmsum myndum er útbreitt vandamál, og sérstaklega alvarlegt þegar um börn er að ræða enda getur það haft varanleg áhrif á velferð þeirra og líðan. Síðastliðinn vetur fór að bera á nýrri birtingarmynd ofbeldis meðal barna og unglinga þar sem fyrirhuguð slagsmál voru auglýst á samfélagsmiðlum, þau tekin upp og efninu dreift. Í sumum tilfellum mjög grófar og alvarlegar árásir þar sem allt niður í tólf ára gömul börn áttu í hlut. Í kjölfar hrottafenginnar árásar í Hamraborg þar sem fjórtán ára drengur sætti barsmíðum af hendi hóps sér eldri unglingspilta óskaði ég eftir umræðu í bæjarráði um viðbrögð Kópavogsbæjar vegna málsins. Þar bar ég upp tillögu Pírata í Kópavogi þess efnis að sveitarfélagið hæfi átak gegn einelti og ofbeldi ungmenna. Bæjarráð samþykkti að Kópavogsbær myndi hefja samræður við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu um samstíga aðgerðir vegna ofbeldis meðal unglinga.
Nú liggur fyrir ný framkvæmdaráætlun bæjarins í barnaverndarmálum og meðal þess sem áætlað er, er að stofna ofbeldisteymi barnaverndar í Kópavogi. Þannig verður núverandi heimilisofbeldisteymi útvíkkað, starfsmönnum fjölgað og mun teyminu ætlað að sjá um öll barnaverndarmál er varða ofbeldi; tilfinningalegt/sálrænt ofbeldi, heimilisofbeldi, kynferðislegt ofbeldi og líkamlegt ofbeldi. Áhersla verður lögð á samstarf við aðrar stofnanir vegna málavinnslu í teyminu og þá sérstaklega við lögreglu, heilbrigðis- og skólakerfi. Tilkynningum um líkamlegt ofbeldi verður veitt sérstök athygli árið 2021 með það að markmiði að móta skýrt verklag varðandi tilkynningar um líkamlegt ofbeldi og bæta þjónustu og stuðning við börn sem hafa upplifað það.
Ég fagna þessum góðu viðbrögðum og mikilvægu aðgerðum í því að tryggja öryggi barna og ungmenna. Það er mikilvægt að bæjaryfirvöld sendi skýr skilaboð um að ofbeldi eigi aldrei að líðast.
Ef þú hefur áhyggjur af aðstæðum barns er mikilvægt að tilkynna það til barnaverndar svo veita megi viðkomandi barni og fjölskyldu stuðning. Starfsfólk barnaverndar leggur áherslu á samstarf við börn og foreldra við vinnslu mála. Nærgætni og virðingar er gætt í samskiptum við alla og fyllsta trúnaðar heitið. Hægt er að senda tilkynningu til barnaverndar með aðgengilegum hætti af vef bæjarins eða með því að hringja í þjónustuver Kópavogs í síma 441 0000.