Um þessar mundir eru liðnir rúmir þrettán mánuðir síðan fyrsta flóttafólkið hóf að koma sér fyrir á Íslandi í kjölfar innrásar Pútíns í Úkraínu. Strax í mars í fyrra voru komnir vel yfir 500 manns til landsins og síðan þá hafa að jafnaði komið 200 flóttamenn í hverjum einasta mánuði. Þetta fólk fær dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Meirihlutiþess hefur þegar ráðið sig til starfa hér á landi, eftir að hafa komið sér fyrir og náð áttum. Flest leggja áherslu á að fara sem fyrst út á vinnumarkaðinn og leggja mikið á sig til að finna vinnu. Þá hefur deildarstjóri flóttamannadeildar hjá Vinnumálastofnun lýst því yfir að atvinnurekendur séu bæði jákvæðir og ánægðir með starfsfólkið, sem er duglegt í vinnu.
Okkur ber skylda til að tryggja öryggi fólks sem er á flótta undan ofbeldi og ofsóknum. Við sem samfélag eigum að veita vernd og stuðning og tryggja að komið sé fram við fólk, sem neyðist til að flýja stríðshrjáð heimalönd sín, af reisn og virðingu. Með því að opna dyr okkar fyrir flóttafólki erum við að uppfylla skyldur okkar sem ábyrgir meðlimir alþjóðasamfélagsins. Móttaka flóttafólks hefur verulegan efnahagslegan ávinning, bæði fyrir Kópavogsbæ sem og á landsvísu. Fólk sem flytur hingað býr yfir dýrmætri kunnáttu og reynslu sem getur eflt hagkerfið. Það stofnar jafnvel fyrirtæki sem skapa störf og örva hagvöxt. Raunar hafa rannsóknir sýnt að innkoma flóttafólks í samfélög hefur jákvæð áhrif á atvinnulífið, þar sem framlag þess vegur upp á móti kostnaði við búsetu. Móttaka flóttafólks er auk þess heilt yfir auðgandi fyrir samfélagið okkar. Fólk sem hingað kemur flytur með sér fjölbreytta menningu, tungumál og hefðir sem geta bætt skilning okkar og víkkað sjóndeildarhringinn.
Auðvitað felast áskoranir í því að taka á móti flóttafólki. Aðlögunarferlið getur verið flókið á báða bóga og oft þarf að yfirstíga tungumála-og menningarlegar hindranir. Svo ekki sé minnst á að mörg sem hingað koma hafa jafnvel upplifað mikil og flókin áföll vegna stríðsátakanna í heimalandi þeirra. En þessar áskoranir er hægt að takast á við með markvissum stuðningi og fjárfestingu í menntun og fræðslu. Með því að veita flóttafólki þau tæki og tól sem það þarf til að ná árangri getum við hjálpað því að aðlagast og dafna í nýju samfélagi.
Ég tel að okkur sem samfélagi beri siðferðisleg skylda til að taka á móti flóttafólki og ég er sannfærð um að það skili miklum ávinningi, bæði fyrir þau sem hingað koma sem og okkur sem tökum á móti þeim. Með því að vinna saman að því að veita flóttafólki stuðning og tækifæri getum við skapað blómlegt samfélag án aðgreiningar.
Fyrir um ári síðan staðfesti þáverandi bæjarstjóri að Kópavogsbær væri kominn á lista yfirsveitarfélög sem ætluðu að taka þátt í samræmdri móttöku flóttafólks. Á sama tíma og fjölmörg önnur sveitarfélög hafa gengið frá slíkum samstarfssamningi við ríkið hefur enginn slíkur samningur litið dagsins ljós fyrir Kópavog. Þar af leiðandi er sveitarfélagið ekki að fá neina meðgjöf frá ríkinu, fyrir það fólk sem hefur þó engu að síður komið og sest hér að. Brýnt er að flýta samningsgerð eins og hægt er til að gæta bæði hagsmuna flóttafólks og bæjarins. Með því að taka fljótt og vel á móti fólki má styðja það til virkrar þátttöku í samfélaginu