Mig langar að byrja á því að þakka ykkur fyrir frábærar viðtökur síðustu vikurnar. Nú eru kosningarnar hafnar og verður kosið frá 8. – 12. mars. Ég vil hvetja ykkur til að taka þátt.
Framboð mitt stendur fyrir skýra sýn á VR.
Við erum í stærsta og öflugasta stéttarfélagi landsins og þannig viljum við hafa það.
Mikilvægast er að setja kraft í kjarabaráttuna. Það hefur setið á hakanum en er mikilvægasta verkefni stéttarfélagsins. Við þurfum manneskju í formann VR sem gerir kjarabaráttuna að aðalatriði.
Stéttarfélagið þitt á að vinna fyrir þig. Ég sé mörg áhugaverð sóknarfæri til að gera betur í þjónustu við félagsmenn og efla með því móti félagið okkar. Ég tel að við eigum vannýtt sóknarfæri í kjarabaráttunni, hjá millitekjufólki, ekki hvað síst lægri millitekjuhópum félagsins, sem hafa mátt þola hlutfallslega mestu kaupmáttarskerðinguna í samanburði við þróun lægstu launa. Þá tel ég brýnt að rétta við markaðslaunakerfi VR, sem hefur verið helsta sérstaða félagsins og lykillinn að jákvæðri launaþróun innan VR.
Ég hef einnig verið að ræða mikið við félagsmenn um varasjóðinn okkar. Hann er augljóslega ekki að nýtast stórum hluta félagsmanna nógu vel. Hér er því að mínu mati augljóst sóknarfæri til að gera betur, s.s. með endurgreiðslum vegna kostnaðar við gleraugu og sálfræðiþjónustu, svo að dæmi séu tekin.
Við þurfum að berjast fyrir styttingu vinnuvikunnar, sterkari sjúkrasjóð – sem kominn er úr 9 mánuðum í 7 mánaða rétt, orlofsmálum og sumarbústöðum. Sóknarfærin til að gera betur eru mörg og góð.
Kæri VR félagi.Framtíðin er núna. Við þurfum að einhenda okkur af fullum þunga í þróunarstarf vegna 4. iðnbyltingarinnar, en staðreyndin er sú að verulegar breytingar eru framundan á vinnumarkaðnum okkar í samsetningu og framboði starfa, ekki hvað síst störfum VR félaga. Þá munu aðgerðir vegna loftslagsbreytinga mjög líklega ýkja þessi áhrif, þannig að okkur er ekkert að vanbúnaði í þessum efnum í breiðu samstarfi innan verkalýðshreyfingarinnar.
Aðeins 10% VR félaga kusu núverandi formann VR til forystu á sínum tíma. Ég vil að rödd hinna 90% VR félaga heyrist. Tökum þátt í kosningunum.
Áfram Kópavogur.
Áfram VR.