Fræðslusetur í Guðmundarlundi í Kópavogi var vígt við hátíðlega viðhöfn í vikunni.
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs og Kristinn H. Þorsteinsson formaður Skógræktarfélags Kópavogs tóku til máls við athöfnina. Þá gróðursettu börn úr Kópavogi tré í lundinum við hið nýja setur með dyggri aðstoð forseta Íslands, bæjarstjóra og fulltrúa Skógræktarfélags Kópavogs.
Fræðslusetrið verður meðal annars nýtt af leik- og grunnskólum í Kópavogi en stefnt er að því að í Guðmundarlundi verði boðið upp á fyrsta flokks aðstöðu til útikennslu þar sem lögð verður sérstök áhersla á náttúrulæsi, umhverfis- og náttúruvernd og áhrif loftlagsbreytinga á umhverfið.
„Fræðslusetrið er í samræmi við þá áherslu sem við höfum lagt á útikennslu í skólastarfi í Kópavogi en í bænum eru útikennslustofur við alla skóla. Þá er áhersla á umhverfismál og áhrif loftslagsbreytinga mikilvæg og í takt við innleiðingu bæjarins á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna,“ sagði Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, við tækifærið.
Húsið er í eigu Kópavogsbæjar og Skógræktarfélags Kópavogs en skógrækt hefur verið í Guðmundarlundi frá sjöunda áratugnum og er svæðið mjög vinsælt til útivistar.
Vígsla setursins var haldin í tengslum við aðalfund Skógræktarfélag Íslands sem fram fer í Kópavogi 30. ágúst til 1. september.