Þessa dagana er verið að fara yfir fjörutíu umsóknir sem hafa borist um starf listræns stjórnanda Gerðarsafns. Ráðið verður í starfið til fimm ára í senn. Guðbjörg Kristjánsdóttir lét nýlega af störfum sem forstöðumaður safnsins sem hún gegndi síðustu tuttugu ár. Arna Schram, forstöðumaður Listhúss Kópavogsbæjar, vonast til að fljótlega verði hægt að kynna nýjan listrænan stjórnanda Gerðarsafns til sögunnar. Verið sé að vinna að stefnumótun fyrir menningarmálin í heild í Kópavogi og þar undir sé einnig Gerðarsafn. Eitt af hlutverkum nýs listræns stjórnanda verði að móta listræna stefnu safnsins til næstu ára. Markmiðið er að auka aðsókn að safninu til muna, að sögn Örnu.
Hvað koma margir að meðaltali á Gerðarsafn á dag sem borga sig inn og hvað eru mörg stöðugildi í safninu?
„Flestir borga sig inn en það er frítt á miðvikudögum. Sömuleiðis er frítt fyrir börn og ungmenni yngri en 18 ára, aldraða, öryrkja, námsmenn og félaga í SÍM, ICOM, FÍMK, FÍSOS gegn framvísun skírteinis. Sé litið á tölur fyrstu mánuði þessa árs, eru að meðaltali eitt þúsund gestir á mánuði. Í Gerðarsafni er heimild fyrir 2,8 stöðugildum; listrænum stjórnanda, aðstoðarmanni og tveimur í hálfu starfi í afgreiðslu. Þar fyrir utan þjónusta húsverðir allt svæðið á menningartorfunni og þar með Gerðarsafn. Það sama á við um þrif.
Er þessi aðsókn ásættanleg?
„Aðsókn í Gerðarsafn jókst árin á eftir hrun en dalaði svo aftur í fyrra og sú þróun hefur haldið áfram það sem af er ári. Auðvitað viljum við sjá meiri aðsókn en nú er og að því er stefnt. Við stöndum á ákveðnum tímamótum núna og í því felast tækifæri sem við ætlum að nýta okkur. Við erum til dæmis þessa stundina að vinna að allsherjar stefnumótun í menningarmálum bæjarins með það í huga að móta betur heildarsýn okkar; stefnu, sérstöðu og áherslumál. Þannig viljum við skerpa sýn og forgangsraða í samræmi við það og gera enn betur en nú er gert bæjarbúum öllum til heilla. Í því sambandi ber að nefna að Gerðarsafn er klárlega eitt af flaggskipum bæjarins í menningarmálum og verður það eitt af verkefnum nýs listræns stjórnanda að finna leiðir til að ná til stærri hóps. Að lokinni heildarstefnumótun, sem vonandi lýkur fyrir aðventu, verður farið í að fylgja nýrri og skarpari sýn eftir meðal annars með öflugra markaðs – og kynningarstarfi. Síðan mun eitt leiða af öðru.“
Hvað varð um kaffihúsið í Gerðarsafni? Af hverju hætti það og stendur til að endurvekja það?
„Kaffihúsið í Gerðarsafni var lagt niður á erfiðum tímum, fáeinum árum eftir hrun þegar verið var að skera hér allt niður við trog, meðal annars í stjórnsýslu, í skólum og á fleiri stöðum. Rekstur kaffihússins var auk þess óhagkvæmur og greiddi bærinn milljónir á ári með því, hátt í ellefu milljónir á ári þegar mest var. En það er ekki þar með sagt að þarna verði aldrei aftur kaffihús. Við vitum að margir sakna þess. Þetta er því eitt af því sem verður skoðað í heildarstefnumótun okkar; hvort og þá hvernig því verður viðkomið og jafnvel hvort hægt verði að finna hagvæmari leiðir.“
Að mati listamanna sem við höfum rætt við hafa landkynninga- og fréttaljósmyndasýningar dregið úr vægi safnsins sem vettvangur samtímalistar. Ert þú sammála því?
„Nei, ekki þegar á heildina er litið. Blaðaljósmyndasýningin stendur til dæmis ekki mjög lengi og hefur verið vel sótt, sérstaklega fyrstu árin. Það er þó ekki þar með sagt að svona verði þetta um ókomin ár. Við leggjum áherslu á að nýr listrænn stjórnandi fái frjálsar hendur í þessum efnum. Það verður hans verkefni að móta listræna stefnu í samráði við lista – og menningarráð, innan þess ramma sem settur hefur verið utan um safnið, það er að segja að Gerðarsafn sé listasafn með megináherslu á nútíma- og samtímalist.“
Hver er hugmyndafræði Gerðarsafns?
„Gerðarsafn er rekið af almannafé og við viljum þess vegna einmitt að það verði sá suðupottur sem flestir hafi skoðun á og vilji sjá og heimsækja. Í því samhengi vil ég líka nefna að eitt af því sem unnið er að í stefnumótunarvinnunni er barnamenningin; og verður því skoðað hvernig efla megi menningarfræðslu barna- og ungmenna í Kópavogi. Gerðarsafn er þar líka í lykilhlutverki. Við viljum gjarnan tengja allar okkar menningarstofnanir við allt það góða menningar – og listastarf sem unnið er víða um bæ, hvort sem það er í Auðbrekkunni eða annars staðar. Stefnumótun þýðir að við erum opin fyrir öllum góðum hugmyndum sem geta eflt Kópavog sem menningarbæ, svo mikið að eftir verði tekið, innan bæjar sem utan,“ segir Arna Schram, forstöðumaður Listhúss Kópavogsbæjar.