Vinnuþrælkun


Guðmundur Ingi Kristinsson skipar 1. sæti fyrir Flokk fólksins í Suðvesturkjördæmi.

Er vinnuþrælkun stunduð á Íslandi? Já, ég tel svo vera þegar veikt og slasað fólk er að vinna fyrir launum upp að  t.d. 300-900 þúsund krónum á ári og þau svo gerð upptæk af ríkinu (TR) ári síðar. Vinnulaunin tekin með sköttum og skerðingum í heild sinni og öryrkjar og eldriborgarar skyldir eftir með kostnaðinn við að komast til og frá vinnu og annan kostnað vegna hennar.

Síðan kórónar ríkið þrældóminn með því að nota tekjurnar sem fólkið vann sér inn og fékk aldrei til að valda keðjuverkandi skerðingum á öllum öðrum bótaflokkum TR og ríkisins. Skerða húsnæðisbætur, vaxtabætur, barnabætur, lyfjastyrki  og allt annað sem þeir geta í þessu bútasaumaða skrímsli sem almannatryggingakerfið er í dag.

Hver kom þessu refsikerfi mannvonskunnar á og viðheldur því? Jú, ríkistjórnir undanfarinna ára og ekki eru þær hættir því. Nei, því alltaf er verið að skerða meira og ganga harðar að veiku og slösuðu fólki með auknum kostnaði í heilbrigiskerfinu og annars staðar þar sem ríkið er að hækka álögur á okkur.

Það verður að láta reyna á þessa þrældómsvinnu fyrir dómstólum. Að plata fólk til að vinna launalaust og í þokkabót að láta það borga af lífeyrislaunum sínum kostnaðinn af vinnunni er ekkert annað en gróft fjárhagslegt ofbeldi sem ber að stöðva strax.

Þetta á einnig við um lífeyrissjóðlaunin okkar sem eru lögþvingaður sparnaður sem er eignavarinn. Lífeyrissparnaður sem er ekki bara skattaður og skertur yfir 100%, heldur einnig notaður til að skerða aðrar bætur og styrki frá ríkinu og TR, eins og vinnulaunin.

Stöðvum þrældóminn og þessa ólöglegu eignarupptöku strax, því hún er brot á mannréttindum og Stjórnarskrá Íslands.

X-F Flokkur fólksins gegn eignarupptöku og skerðingum á launum og lífeyrissjóðslaunum.