„Vonum að réttlætið sigri að lokum.“

Guðmundur Gíslason og Karl Sigurðsson eru hálfbræður sem bornir voru út af Vatnsenda ásamt Margréti, móður sinni, árið 1969.
Guðmundur Gíslason og Karl Sigurðsson eru hálfbræður sem bornir voru út af Vatnsenda ásamt Margréti, móður sinni, árið 1969.
Guðmundur Gíslason og Karl Sigurðsson eru hálfbræður sem bornir voru út af Vatnsenda ásamt Margréti, móður sinni, árið 1969.

Á þessu ári eru slétt fimmtíu ár síðan Sigurður heitinn Hjaltested, þáverandi eigandi jarðarinnar Vatnsenda, lést um borð í Gullfossi í sinni fyrstu utanlandsferð sem jafnframt var síðbúin brúðkaupsferð hans og Margrétar Guðmundsdóttur, eiginkonu hans. Vatnsendajörðina hafði Sigurður erft frá Magnúsi Hjaltested samkvæmt erfðaskrá sem gerð var árið 1938. Samkvæmt fyrstu grein hennar skyldi jörðin ganga að erfðum til hans með tilteknum takmörkunum um ráðstöfun jarðarinnar.

Andlát Sigurðar Hjaltested markar upphaf hatrammra deilna um Vatnsendajörðina. Nokkrum dögum eftir jarðaför Sigurðar heimsótti Magnús, sonur hans, Margréti Hjaltested, stjúpmóður sína, og krafðist að fá að flytja á Vatnsendabæinn og taka við búinu á grundvelli erfðaskrár afabróður síns. Upphófust deilur sem lauk þremur árum síðar með því að Margrét var borin út af jörðinni ásamt hálfbræðrum Magnúsar en þau Margrét og Sigurður höfðu eignast tvo syni; Sigurð yngri og Karl.

Þrjátíu og tvo lögreglumenn þurfti til að framfylgja dómi Hæstaréttar. Ekki voru til svo margir lögreglumenn í Kópavogi svo sækja þurfti liðsauka í nágrannasveitarfélögin. Fjölmörg vitni voru að þessum atburði. Þetta þótti harkaleg aðgerð og til að tryggja að myndatökumenn frá blöðunum kæmust ekki nálægt var veginum lokað að bænum.

„Ég var sá eini sem var borinn út af Vatnsenda,“ segir Guðmundur Gíslason, sonur Margrétar af fyrra hjónabandi. „Og þá meina ég borinn út – í orðsins fyllstu merkingu – af þremur lögregluþjónum.“ Guðmundur var þá um tvítugt og neitaði að yfirgefa heimili sitt ásamt móður sinni. „Ég sagði við mömmu að ef ein lögga myndi svo mikið sem snerta hana, þá væri mér að mæta.” Þá stóð mamma loks upp og fór út úr húsinu sjálfviljug, líklega til að forðast átök. En ég lét þá hafa fyrir því að bera mig út þar sem ég ríghélt í hurðina og spyrnti við fótum.“

Þessi atburður hefur markað djúp spor í líf Guðmundar og Karls, hálfbróður hans, en þeir eru sammæðra, synir Margrétar. Eftir útburðinn fór Margrét með börnin á hálfgerðan vergang og leigði húsnæði hér og þar um bæinn. „Fólki var alltaf eitthvað í nöp við okkur,“ segir Karl. „Einu sinni fluttum við í Háaleitið í ágætis íbúð sem við fengum leigða en það var fljótt að spyrjast út að þarna væri „Vatnsendafólkið.“ Þá var ekki að sökum að spyrja. Okkur var gert ljóst að við værum ekki velkomin í húsið.“ Guðmundur flutti til Svíþjóðar og settist þar að en snéri aftur hingað til lands árið 2006. ,,Verst þótti mér að barnaverndaryfirvöld í Kópavogi höfðu áform um að taka bræður mína, þá Sigga og Kalla, og flytja þá á Breiðuvík,“ segir Guðmundur þegar hann rifjar þetta upp. „Því tókst sem betur fer að afstýra enda hafði mamma fengið veður af þeim fyrirætlunum og þeim var komið í öruggt skjól daginn áður en lögregla og barnaverndaryfirvöld mættu á Vatnsenda. Það var farið fram með miklu offorsi gegn mömmu sem átti augljósan ábúðarrétt að jörðinni, eftir manninn sinn. Hæstiréttur staðfesti það árið 2013,“ segir Guðmundur, alvarlegur í bragði. „Einhvern veginn gat Magnús látið sýslumann þinglýsa jörðinni á sig árið 1971 sem hann mátti alls ekki gera enda hafði hann einungis ábúðarrétt á jörðinni, samkvæmt erfðaskránni,“ segir Guðmundur.

Þeir bræður segja að ástæða þess að þeir fóru af stað með að leita réttar síns hafi verið sú að skiptum í búi föður og stjúpföður þeirra, Sigurðar Hjaltested, væri ekki lokið. „Það kemur í ljós þegar við förum að skoða þetta að þáverandi skiptastjóri hafði ekki lokið skiptunum. Hann hafði svelt mömmu út af bænum en láðst að gera upp búið,“ segir Guðmundur. „Á meðan mamma bjó á Vatnsenda byrjaði hann að taka ef henni lóðaleiguna sem var aðal tekjulind jarðarinnar. Síðan tók hann af henni tekjur vegna veiði úr jörðinni. Það væri nú gott ef núverandi skiptastjóri Vatnsenda myndi ganga svona hart fram en það hefur alls ekki verið svo.“

Eftir að dómur Hæstarréttar féll þann 24. ágúst 2011 var nýr skiptastjóri kallaður að búinu. „Þá reis upp ágreiningur hvort jörðin Vatnsendi væri meðal eigna í dánarbúinu,“ segir Karl. „Því máli var vísað til Hæstaréttar sem kvað endanlega úr um að jörðin væri á hendi dánarbúsins. Um sumarið árið 2013 hélt skiptastjóri fund þar sem hann sagði að það væri fyrst og fremst hans hlutverk að ráðstafa beinum eignarétti að jörðinni og óskaði eftir að fulltrúar erfingja skiluðu inn rökstuddri afstöðu um hvernig ætti að ráðstafa þessum rétti. Þessu mótmæltum við öll og skoruðum á skiptastjórann að hann innheimti eignir og kröfur búsins. Því miður varð hann ekki við þeirri beiðni. Við teljum að dánarbúið hafi orðið fyrir mjög miklu tjóni af hans völdum. Þrátt fyrir dóma sem allir hafa verið í þá átt að dánarbúið eigi jörðina, og að það beri að skipta samkvæmt erfðarlögum, þá hefur skiptastjórinn ekkert gert til að ná þeim peningum til baka í dánarbúið. Hann hefur meira að segja reynt að rukka okkur fyrir einhverja vinnu en gerir sér ekki grein fyrir að hann er settur skiptastjóri yfir búi sem ekki er búið að skipta og er í opinberum skiptum. Maður spyr sig hvort skiptastjóri eigi ekki að vera hlutlaus og vinna með dánarbúinu en ekki gegn því? Við erum núna búnir að reka þrjú mál í Hæstarétti gegn skiptastjóra og líka gegn Þorsteini og vinna þau öll,“ segir Karl.

Eftir andlát Magnúsar Hjaltested tók Þorsteinn, sonur hans, við búinu en þeir feðgar sömdu við Kópavogsbæ um eignarnám á Vatnsendajörðinni í fjögur skipti; árið 1992, 1998, 2000 og 2007 og þáðu fyrir það svokallaðar „eignarnámsbætur“ sem nema milljörðum króna. Kópavogsbær ber fyrir sig að þar sem Þorsteinn hafi verið þinglýstur eigandi jarðarinnar hafi bærinn verið grandalaus og í góðri trú um að Þorsteinn hafi verið réttmætur eigandi jarðarinnar. „Hæstiréttur komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að réttmætur eigandi jarðarinnar sé dánarbúið,“ segir Karl. „Varðandi þinglýsingavottorð þá er öllum fasteignasölum kennt að fara eins aftarlega í sögu hverrar fasteignar og þeir komast til að skera úr um hvernig raunverulegt eignarhald eignarinnar er háttað,“ segir Karl. „Áður en Kópavogsbær fór í eignarnám á Vatnsenda hefði þeim verið í lófa lagt að skoða erfðaskrána frá 1938 til að sjá hvernig í pottinn væri búið. Honum bar að gera það og þeir sem komu að þessum gjörningi vissu vel að vafi lék á eignarhaldi Þorsteins. Áður en bærinn samdi við Þorstein árið 2007 hafði lögmaður okkar varað eindregið við því að ganga til þessa samkomulags en honum var vísað á dyr. Kópavogur hefur ekki uppfyllt öll ákvæði eignarnámssáttarinnar frá 2007 og þar munar mörgum milljörðum. Ef við tökum bara eignarnámið árið 2007 fyrir þá greiddi Kópavogsbær Þorsteini 2,250 milljarða sem innáborgun í það eignarnám,“ segir Karl. „Í samkomulaginu var einnig kveðið á um að hann fengi 300 einbýlishúsalóðir. Það á eftir að afhenda þær og uppfylla það ákvæði samningsins. Verðmætið á þeim lóðum hleypur á milljörðum,“ segir Karl. „Þorsteinn hefur ekki búið á jörðinni til fjölda ára og Vatnsendi er eyðibýli í dag. Það ótrúlega er, að ein af kvöðum erfðaskrárinnar er að honum ber að sjá um viðhald á jörðinni. Honum er bannað að veðsetja jörðina, hann má ekki bregða búi og það má ekki selja hlunnindi jarðarinnar. Hann er búinn að gera þetta allt og ekki bara einu sinni. Hann situr í tveimur óskiptum dánarbúum; Magnúsar, pabba síns, og Sigurðar, afa síns. Hann hefur aldrei greitt erfðafjárskatt. Hvenær á þetta rugl að enda,“ spyr Guðmundur. Kópavogsblaðið reyndi að hafa samband við Þorstein Hjaltested til að bera þetta undir hann, en hafði ekki árangur sem erfiði.

„Frá mínum bæjardyrum séð er þetta stærsti einstaki þjófnaður Íslandssögunnar. Yfirvöld í Kópavogi hafa aðstoðað Magnús og Þorstein við að svindla. Ég tel það vera ástæðuna fyrir þeim töfum og hindrunum sem við verðum fyrir þegar við krefjumst réttar okkar. Í öllum eðlilegum réttarfarsríkum hefði svona mál í mesta lagi tekið eitt og hálft ár, en við erum búin að væflast með þetta í kerfinu fram og til baka í tíu ár. En við vonum að réttlætið sigri að lokum,“ segir Karl.

Staða málsins í dag
Kröfum erfingjanna á hendur Kópavogsbæ var nýlega vísað frá Héraðsdómi þar sem dómurinn taldi málið vanreifað. Hæstiréttur var ekki á sömu skoðun og snéri þeirri ákvörðun við svo málið þarf að fara aftur fyrir Héraðsdóm. Við síðustu fyrirtöku málsins var málið sameinað í eitt. Horfið var þá frá því að fjalla annars vegar bara um meinta bótaskyldu og hins vegar bara um þá upphæð sem skyldi dæma um. Málið verður tekið fyrir á ný þann 6. maí en þá munu erfingjarnir leggja fram beiðni um mat á verðmæti Vatnsendajarðarinnar. Matið ætti þá að staðfesta eða gefa vísbendingu um þá upphæð sem krafa erfingjanna byggir á, en hún nemur 75 milljörðum króna. Niðurstaða úr því mati mun væntanlega liggja fyrir í haust en fastlega má búast við að tekist verði á um það og kallað eftir svokölluðu yfirmati sem mun væntanlega taka lengri tíma. Dóms í héraði yrði þá ekki að vænta fyrr en á næsta ári.

Umræðan

Fleiri fréttir

Íbúar völdu saunur og skautasvell

Infrarauðar saunur og yfirbyggðir stigar í rennibrautir beggja sundlauga Kópavogs, vélfryst skautasvell í Kópavogsdal, bleikir bekkir til minningar um Bryndísi Klöru Birgisdóttur, aðstaða til sjósunds á Kársnesi og endurnýjun og

Höskuldur og Thelma íþróttakarl og íþróttakona ársins

Höskuldur Gunnlaugsson knattspyrnumaður úr Breiðabliki og Thelma Aðalsteinsdóttir fimleikakona úr Gerplu voru kjörin íþróttakarl og íþróttakona Kópavogs fyrir árið 2024.  Kjörinu var lýst á íþróttahátíð Kópavogs í Salnum miðvikudaginn 8.

Leifur Eiríksson Þjónustumiðstöð Kópavogsbæjar, Unnar Atli Guðmundsson plokkari, Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri og Ásthildur Helgadóttir sviðsstjóri umhverfissviðs.

Plokkari ársins

Unnar Atli Guðmundsson er plokkari ársins í Kópavogi. Bæjarstjóri Kópavogs Ásdís Kristjánsdóttir heiðraði Unnar í Þjónustumiðstöð Kópavogsbæjar en þangað sækir Unnar ruslapoka fyrir plokkið, sem unnið er í sjálfboðavinnu. Unnar

Aðventuhátíð Kópavogs

Aðventuhátíð í Kópavogi verður haldin með pompi og pragt, laugardaginn 30. nóvember. Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri tendrar ljósin á jólatré Kópavogsbæjar við menningarhúsin við hátíðlega athöfn kl. 17. Jólasveinar bregða á