Vortónleikar Skólahljómsveitar Kópavogs

Það var mikil eftirvænting í loftinu sunnudaginn 7. mars þegar nemendur Skólahljómsveitar Kópavogs gátu loks haldið tónleika, eftir heilt ár af tónleikaþögn. Skólahljómsveitin hefur eins og gengur þurft að aðlaga starf sitt að farsóttinni síðasta ár og hefur það helst bitnað á tónleikahaldinu. Að jafnaði eru nefnilega um 90-100 viðburðir á ári þar sem nemendur hljómsveitarinnar koma fram og spila á hljóðfærin sín en á síðasta ári voru innan við tíu þannig viðburðir og flestir í formi streymis eða myndbandsupptöku. Það var því sérlega glaður hópur ungra hljóðfæraleikara sem kom fram á tónleikunum og fékk loksins að gera það sem þau eru best í, að spila lifandi tónlist fyrir áhorfendur. 

Einbeittir slagverksleikarar í B-sveit SK.

Tónleikunum skipt í þrennt

Venjulega eru haldnir einir stórtónleikar á vorönn þar sem allar þrjár sveitir SK koma fram og leika listir sínar, en vegna sóttvarna þurfti í þetta sinn að skipta tónleikunum í þrennt þannig að hver hljómsveit var með heila tónleika fyrir sig. Einnig þurfti að skipta tónleikastaðnum, Háskólabíói, í tvö sóttvarnarhólf og viðhafa ýmsar sóttvarnarseremóníur til að allt færi nú fram eftir settum reglum. Hljóðfæraleikararnir létu það nú ekki á sig fá og efldust bara ef eitthvað er í því að spila tónlistina og vanda sig eins og þau best gátu. Það er þó alltaf skrýtið að spila tónleika fyrir grímuklædda gesti.

Frá tónleikum A-sveitar.

Á fyrstu tónleikum dagsins léku yngstu hljóðfæraleikararnir í A sveit SK sína efnisskrá.Í þeirri sveit eru börn á fyrsta og öðru ári í tónlistarnámi og voru flest þeirra að stíga sín fyrstu spor á svona stóru tónleikasviði. Óhætt er að segja að þau hafi staðið sig með miklum sóma og sýnt mikið öryggi í framkomu og hljóðfæraleik. Á þessum tónleikum heyrðust í fyrsta sinn tónar hljóðfæris sem er nýlega komið í hljóðfærasafn SK og nefnist Tubular Bells á ensku og er nefnt rörklukkur upp á íslensku. Eigendur Rakarastofunnar Herramenn í Hamraborg hafa haft frumkvæði að því að safna fé til kaupa á því hljóðfæri og verður það formlega vígt á tónleikum næsta haust.

Hrafnkatla Ýma slær fyrstu tónana á rörklukkurnar.

Aðrir tónleikar dagsins voru í höndum B sveitar SK og stjórnanda hennar, Jóhanns Björns Ævarssonar. Í B sveit eru nemendur sem hafa þriggja til fjögurra ára nám að baki og léku þau blandaða efnisskrá með tónlist af ýmsum toga, kvikmyndatónlist, dægurtónlist og klassískt efni af stakri prýði. Þessi hópur náði að komast í árangursríkar æfingabúðir í janúar til að æfa fyrir tónleikana en annars hafa æfingaferðir legið niðri í vetur eins og tónleikahald og aðrir viðburðir.

Síðustu tónleikar dagsins voru svo tónleikar C sveitarinnar, elsta hópsins, sem í eru ungmenni frá þrettán ára aldri og upp undir tvítugt. Þau skila viðmiklum tónverkum á sínum tónleikum sem hvaða atvinnuhljómsveit sem er væri sómi af að spila og gera það auk þess af stakri fagmennsku í alla staði. 

Frá tónleikum C-sveitar Skólahljómsveitar Kópavogs.

Tíu ára viðurkenning

Á tónleikum C sveitar fengu þau Glóey Guðmundsdóttir og Atli Mar Baldursson afhenta viðurkenningu fyrir glimrandi frammistöðu í tíu ár með skólahljómsveitinni. Þau hafa staðið vaktina með stakri prýði öll þessi ár og verið öðrum hljóðfæraleikurum góð fyrirmynd. Námið hjá SK spannar sjö ár, þar sem nemendur byrja í 4. bekk og eru útskrifuð eftir 10. bekk. Eftir sem áður kjósa margir að spila áfram með hljómsveitinni í einhvern tíma eftir útskrift enda er þetta sérlega góður félagsskapur og gefandi að spila saman vandaða tónlist.

Að loknum þessum langa tónleikadegi var yfirbragð stolts og gleði ríkjandi meðal allra þeirra sem að tónleikunum komu og tilhlökkun fyrir næstu tónleikum, sem vonandi þarf ekki að bíða eftir í heilt ár.

Deildu:

Facebook
Twitter
Pinterest
LinkedIn

Fleiri fréttir

Stórskemmtileg leiksýning fyrir yngstu kynslóðina

Leikfélag Kópavogs sýnir um þessar mundir barnaleikritið Ferðin til Limbó eftir Ingibjörgu Jónsdóttur (1953-1986) sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu í janúar 1966. Leikritið byggir á barnabókinni Músabörn í geimflugi eftir sama

Er svefn besta verkjalyfið?

Svefn er ein af grunnstoðum góðrar heilsu ásamt góðri næringu, hreyfingu og vellíðan. Þegar við sofum notar líkaminn tímann til að endurnýja sig og undirbúa okkur fyrir næsta dag. Svefn