Einn skemmtilegasti hópurinn á Facebook, að mati margra Kópavogsbúa, er vafalaust „Y-númerahópinn … hver átti hvað?“ Meðlimir hópsins senda inn myndir af gömlum bílum og Y bílnúmerum. Óhætt er að segja að Kópavogsbúar hafi tekið vel í framtakið, sem Ingibjörg Hinriksdóttir á heiðurinn af að hafa ýtt úr vör ásamt Ástu Þórarinsdóttur. Ingibjörg segir 1.400 manns vera í hópnum. „Einhverjir hakkarar hafa reynt að fá inngöngu, en við Ásta sjáum við þeim öllum.“

-Hvers vegna byrjaðir þú með þessa síðu?
Þessi hópur var stofnaður vegna þess að ég sá mynd á Facebook af konu sem var á gangi í Austurstræti. Á bak við hana var bifreiðin Y 1314 og ég fór að velta því fyrir mér hver hafi átt þann bíl. Þetta var strax í byrjun árs 2013 og einhver stakk uppá að það yrði stofnaður Y-hópur í framhaldinu. Ég gerði það og vann dálítið við síðuna í framhaldinu en núna lít ég bara þarna inn við og við. Þess má geta að Þórður Guðmundsson, sem er gamall kennari minn úr Víghólaskóla og mikill áhugamaður um sögu Kópavogs, fann það fljótlega út að Y 1314 var í eigu Bjarna Árnasonar sem bjó að Digranesvegi 60.
Eru þetta allt Kópavogsbúar í hópnum?

Nei alls ekki, það er þarna fólk sem býr erlendis en hefur á einhverjum tímapunkti búið í Kópavogi og átt bíl með Y-númeri. Eyþór Eðvarðsson sendir okkur reglulega myndir frá Evrópu af bílum með Y-númeri. Það passar ekki alveg inní hópinn, en er skemmtilegt.
Veist þú af hverju bókstafurinn „Y“ var valið fyrir bílnúmer í Kópavogi?
Nei nú hef ég ekki hugmynd. En stafirnir C og Q voru ekki notaðir og aðeins annar þeirra sem bera brodd, þ.e. A en ekki Á, Í en ekki I o.s.frv.
Hver er elsti “Y” bíllinn sem sést hefur á síðunni – og hver er sá yngsti.
Nú rekur mig í vörðurnar. Þeir eru margir gamlir, en ég man þó sérstaklega eftir gamalli mynd af Y-451 sem var tekin árið 1960 þannig að bíllinn er dálítið eldri en það. Þessi mynd heillaði mig því pabbi hefur í mínu minni alltaf ekið um á þessu númeri, en ég er auðvitað fædd löngu eftir 1960. Elsta ártalið sem skráð er á skjalið okkar er öskubíllinn góði Y-2 sem var líklega módel 1947. Hæsta númerið sem er skráð er Y 18865, Toyota Tercel árg. 1984 í eigu Guðleifs Guðmundssonar.
Manstu eftir einhverju skemmtilegu innleggi á síðunni sem hefur vakið athygli?
Það eru öll innlegg á síðuna skemmtileg en helst er þó að nefna að það varð uppi smá þras um það hver átti Y-1 og hvernig það var tilkomið að Y-2 fór á öskubílinn.
Eitthvað að lokum?
Lifi Kópavogur og hópurinn Y-númer, hver átti hvað!

