Alls 625 nemendur, aðallega úr leik- og grunnskólum Kópavogs, tóku þátt í nýrri fræðslu- og upplifunarsýningu í Gerðarsafni í byrjun árs, Stúdíó Gerðar. Tilgangur sýningarinnar er að efla safnafræðslu í Kópavogi með áherslu á sköpun og ímyndunarafl þátttakenda. Listamaðurinn Guðrún Benónýsdóttir var hugmyndasmiður sýningarinnar í samstarfi við listrænan stjórnanda Gerðarsafns, Kristínu Dagmar Jóhannesdóttur.
Sýningunni lýkur á sunnudag en á laugardeginum frá kl. 14 til 16 fer fram vinnusmiðja sem ber heitið Skúlptúrgarðurinn, sem er sérstaklega sniðin fyrir börn á aldursbilinu 8 til 12 ára og fjölskyldur þeirra. Þar verður unnið með þrívíð verk út frá skúlptúrum Gerðar og þátttakendur fá að taka yfir allt sýningarrýmið með verkum sínum.
Innsetningin í Stúdíói Gerðar var innblásin af vinnustofu Gerðar Helgadóttur (1928-1975). Þar er hægt að upplifa listaverk, skissur og teikningar Gerðar. Einnig voru settar upp skapandi vinnustöðvar þar sem gestir geta tekið virkan þátt í uppbyggingu sýningarinnar. Á neðri hæð Gerðarsafns er að finna tímalínu með myndum og upplýsingum um feril Gerðar Helgadóttur ásamt heimildamyndinni, Líf fyrir listina.
„Það hefur sýnt sig að mikill áhugi er hjá skólakerfinu að nýta sér ýmsa möguleika í safnafræðslu. Við höfum fengið einstaklega góð viðbrögð og vonumst til að geta haldið áfram sömu braut óháð þeim sýningum sem standa uppi hverju sinni,“ segir Kristín Dagmar Jóhannesdóttir, listrænn stjórnandi Gerðarsafns. „Það er alltaf hægt að finna skapandi leiðir til að kveikja áhuga fólks á myndlist, óháð aldri. Það eru einmitt ungu gestirnir sem gjarnan opna augu okkar eldri. Þakkir hafa borist frá kennurum fyrir góðar móttökur sem segja að börnin tali um heimsóknina eftir á. Það hafi jafnvel skilað sér til foreldranna. Tilgangurinn með þessu er einmitt líka sá að minna á safnið sem skapandi stað þar sem fjölskyldur geta eytt samverustundum og gert eitthvað spennandi og skemmtilegt saman.“
Öllum leikskólum í Kópavogi og yngri börnum grunnskóla bæjarins var boðið að koma á sýninguna en fjölskyldufólk hefur einnig verið hvatt til að taka þátt í sérstökum vinnnusmiðjum líkt og Skúlptúrgarðinum sem fer fram næstkomandi laugardag.