Þorsteinn Hjaltested, bóndi á Vatnsenda, vill, vegna umfjöllunar um málefni hans í síðasta tölublaði Kópavogsblaðsins, taka fram að réttindi hans, og áður föður hans, til jarðarinnar Vatnsenda hafa margsinnis verið staðfest með dómum Hæstaréttar. Réttindi Þorsteins byggja á fyrirmælum erfðaskrár Magnúsar Einarssonar Hjaltested frá árinu 1938. Í þeim réttindum felst m.a. að Þorsteinn einn hefur rétt til umráða jarðarinnar Vatnsenda og til hagnýtingar hennar. Sérstaklega er í erfðaskránni mælt fyrir um einkarétt hans til að leigja út lóðir úr óræktuðu landi jarðarinnar undir hús, leikvelli eða annað. Þegar tjón vegna eignarnáms er metið verður horft til þess að dánarbú Sigurðar afa hans hefur hvorki rétt til hagnýtingar jarðarinnar né rétt til þess að hirða af henni nokkurn arð. Með síðasta eignarnámi Kópavogsbæjar var Þorsteinn sviptur umráðum stærstum hluta jarðarinnar og þeirra heimilda sem hann hafði til hagnýtingar landsins, þar með talið einkarétti hans sem erfingja samkvæmt erfðaskránni til sölu lóða á leigu undir hús eða annað. Þorsteinn er stærsti tjónþoli eignarnámsgerðarinnar og sækir rétt sinn á grundvelli erfðaskrárinnar.
Virðingarfyllst: fh. Þorsteins Hjaltested, bónda á Vatnsenda
Sigurbjörn Þorbergsson hrl.