Vel heppnaður aðalfundur Sögufélags Kópavogs

Sögufélag Kópavogs hélt nýverið aðalfund sinn í Kópavogsskóla. Fundinn sóttu um 100 manns. Utan venjulegra aðalfundarstarfa voru Guðlaugur R. Guðmundsson örnefnafræðingur, Guðmundur Þorkelsson frá Fífuhvammi og Ólafur Guðmundsson fyrrverandi skólastjóri Kópavogsskóla útnefndir heiðursfélagar. Þeir hafa allir á sinn hátt stutt duglega við starfsemi félagsins og markmið þess, meðal annars með sagnaritun, varðveislu skjala og gripa og vilja til að miðla sögu bæjarins.

Á fundinum voru einnig lagðar fram og samþykktar einróma tvær ályktanir til bæjarstjórnar. Sú fyrri er hvatning til bæjaryfirvalda um að styðja við og tryggja útgáfu ritverks Guðlaugs R. Guðmundssonar um örnefni í landi Kópavogs og sögu þeirra en handrit hans er nánast tilbúið til prentunar. Seinni ályktunin er áskorun til bæjaryfirvalda um að finna heppilegt húsnæði til að geyma gripi sem hafa sögulegt gildi fyrir Kópavog en þar sem ekkert byggðasafn er í bæjarfélaginu er hætt við því að þessir gripir fari forgörðum. Því er mikilvægt að hið fyrsta verði til á vegum bæjarins geymsla til að tryggja varðveislu þessara gripa.

Að fundi loknum fræddi Ólafur Guðmundsson fundargesti um sögu Kópavogsskóla. Að því loknu leiddi hann göngu um elsta hluta hans, þar sem einnig voru afhjúpuð lítil fróðleiksspjöld við dyr þeirra rýma þar sem fram fór önnur starfsemi en sú sem beinlínis tengdist skólanum á fyrstu árum hans. Húsið var vígt árið 1949 og þjónaði þá ekki bara sem skóli heldur einnig sem félagsheimili, bókasafn, læknisstofa, kirkja og hreppsskrifstofa ásamt öðru þegar hið nýja sveitarfélag, Kópavogshreppur, var að slíta barnsskónum. Með því vill Sögufélagið tryggja að saga þessa merka húss gleymist ekki meðan það stendur.

Deildu:

Facebook
Twitter
Pinterest
LinkedIn

Fleiri fréttir

Stórskemmtileg leiksýning fyrir yngstu kynslóðina

Leikfélag Kópavogs sýnir um þessar mundir barnaleikritið Ferðin til Limbó eftir Ingibjörgu Jónsdóttur (1953-1986) sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu í janúar 1966. Leikritið byggir á barnabókinni Músabörn í geimflugi eftir sama

Er svefn besta verkjalyfið?

Svefn er ein af grunnstoðum góðrar heilsu ásamt góðri næringu, hreyfingu og vellíðan. Þegar við sofum notar líkaminn tímann til að endurnýja sig og undirbúa okkur fyrir næsta dag. Svefn