„Við komum heim með fullt af gulli, silfri og bronsi rétt eins og á Ólympíuleikunum,” segir kampakát Pemela De Sensi, flautukennara Tónlistarskólans í Kópavogi. Flautukór kórsins lagði nýverið Sikiley á Ítalíu að fótum sér og vann þar mörg verðlaun nýveirð í alþjóðlegu flautukeppninni „Angelo Faja“. Flautukórinn tók jafnframt þátt í Erasmus+ verkefni með nemendum í tónlistarmenntaskóla í Enna og spilaði þar með þeim á tónleikum í Dómkirkjunni undir stjórn Pamelu.
Í flautukór Tónlistarskóla Kópavogs voru 14 nemendur á aldrinum 14 til 24 ára. Flautukórinn fékk fyrstu verðlaun í flautukeppninni og auk þess sérstaka viðurkenningu fyrir framúrskarandi flutning, samspil, tækni og hljóm. Alma Bergrós Hugadóttir, Hrefna Vala Kristjánsdóttir og Höskuldur Tinni Einarsson urðu í fyrsta sæti í lágflautu-samspilsflokki og einnig hvert um sig. Hrefna Vala varð í öðru sæti í pikkólókeppni í yngri flokki og Þóra Magnúsdóttir og Guðjón Daníel Bjarnason urðu í þriðja sæti í einleik á flautu í sínum flokki. Valgerður Íris fékk sérstök verðlaun fyrir pikkóló tækni og Arna Ösp Bjarnadóttir fyrir besta flutninginn á rómantísku verki. Flautukórinn hlaut jafnframt gjafabréf frá ítölskum hljóðfæraframleiðendum til að kaupa hljóðfæri fyrir kórinn.
Eftir flautukeppnina hélt flautukórinn tónleika í þjóðgarðinum í Siracusa og var þeim sjónvarpað og útvarpað á Sikiley. „Flautukórnum frá Tónlistarskóla Kópavogs var sýndur mikill heiður með þessu og var honum var klappað lof í lófa. Þetta var í fyrsta sinn sem tónlistarnemendur hafa fengið að halda tónleika í garðinum og var það mikill heiður,” segir Pamela að lokum.