Fagna miklum rekstrarafgangi en vanrækja velferðarþjónustu

Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, bæjarfulltrúi Pírata í Kópavogi.

Aðsent

Kópavogsbær skilaði óvenju miklum rekstrarafgangi á síðasta ári, eða um 4,5 milljörðum króna. Þetta er mun betri árangur en áætlanir gerðu ráð fyrir og bæjarstjóri hefur farið mikinn og hreykt sér af árangrinum, sem er reyndar að stórum hluta tilkominn vegna einskiptistekna af lóðaúthlutun.

Í nýlegri samantekt frá Velferðarsviði Kópavogs um biðlista eftir velferðarþjónustu kemur fram að biðtími eftir ýmiss konar velferðarþjónustu er gjörsamlega óásættanlegur hér í bæ og ljóst er að málaflokkurinn er verulega vanfjármagnaður.

Til dæmis bíða á annan tug fatlaðra fullorðinna Kópavogsbúa eftir félagslegri stuðningsþjónustu. Þeir sem lengst hafa verið á biðlistanum hafa beðið í hálft annað ár þrátt fyrir að fyrir liggi mat um þörf fyrir rétt á slíkri þjónustu. Stuðningsþörf er skipt upp í fjóra flokka og samkvæmt upplýsingum frá Velferðarsviði er aðeins unnt að þjónusta þá sem eru í fyrsta flokki, með mestu stuðningsþörfina. Hinir geta því séð fram á ansi langa bið, nema auðvitað þeim hraki – þá geta þeir mögulega átt von á að komast að.

Það sama á við um aldraða sem búa heima en þurfa á stuðningi í formi heimaþjónustu að halda. Félagsleg heimaþjónusta við aldraða felur í sér aðstoð við heimilisstörf, persónulega umhirðu og aðrar daglegar þarfir sem gera fólki kleift að búa lengur heima með öryggi og reisn. Þjónustan getur falið í sér þrif, innkaup, aðstoð við hreinlæti, eða fylgd til læknis – allt eftir þörfum viðkomandi. Þessi þjónusta er lögbundin og veigamikil stoð fyrir eldra fólk sem býr á eigin heimili. Samkvæmt nýjustu tölum bíða 59 eldri Kópavogsbúar eftir heimastuðningi. Biðlistarnir lengjast frá ári til árs en staðan er sú að enginn nýr fær þjónustu nema annar hætti. Það er að segja, jafnvel eftir að þörf og réttur til heimaþjónustu hefur verið staðfest með mati, þarf fólk að bíða í fleiri mánuði eftir því að komast að. Til þess þarf beinlínis einhver núverandi notenda að flytja á hjúkrunarheimili, fara á spítala eða deyja.

Starfsfólk velferðarsviðs Kópavogs vinnur af mikilli fagmennsku og útsjónarsemi úr þeim afar þrönga ramma sem þeim er gefinn. En þegar fjárheimildir duga ekki til að veita lögbundna þjónustu og engin úrbót er í sjónmáli, þá er ljóst að staðan er grafalvarleg – og ábyrgðin liggur hjá pólitískri forystu sveitarfélagsins.

Það er mikilvægt að minna á að velferðarþjónusta er ekki eitthvað sem sveitarfélög veita eftir hentugleika – hún er lögbundin skylda. Að hreykja sér af 4,5 milljarða króna rekstrarafgangi á sama tíma og fólk í viðkvæmum hópum bíður mánuðum og árum saman eftir þeirri lögbundnu þjónustu sem það á rétt á lýsir ekki ábyrgri fjármálastjórn heldur kolrangri forgangsröðun. Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar ber pólitíska ábyrgð á þessari stöðu.

Umræðan

Fleiri fréttir

Ársreikningur staðfestur

Bæjarstjórn Kópavogs staðfesti ársreikning ársins 2024 á fundi sínum 13.maí að lokinni síðari umræðu um ársreikninginn. Ársreikningurinn var lagður fram í bæjarráði Kópavogs fimmtudaginn 10.apríl og vísað til fyrri umræðu í