Aðsent
Í skýrslu um heildarsýn fyrir Kópavogsdal sem kom fram vorið 2024 segir:
”Dalvegur 1: Fyrir liggur að Sorpa muni flytja af Dalvegi 1. Segja má að þar verði austurinngangur í Kópavogsdalinn. Mikilvægt er að standa vel að skipulagningu og hönnun svæðisins. Hugmyndasamkeppni meðal íbúa og/eða arkitekta (feitletrun er höfundar), fjárfesta, rekstraraðila um nýtingu svæðisins. Þess ber að geta að svæðið er skilgreint sem verslun og þjónusta í núverandi skipulagi.
Í tillögum frá íbúum var lýst yfir áhuga á kaffihúsi eða veitingastað sem tengir vel við náttúruna og útivistina í dalnum. Skoðaður verði möguleiki á að reisa „fjölnotahús“ með ýmsum nýtingarmöguleikum. Bygging þessa húss yrði að vera einstök, t.d. blanda af grjóti, timbri, gleri og torfi.”
Bæjarstjórn tók vel í framangreinda tillögu vinnuhópsins sem tók tillögur um heildarsýn fyrir Kópavogsdal saman.
Nýlega var birt auglýsing um Sorpu-reitinn á heimasíðu Kópavogs og er honum lýst sem þróunarreit. Þar segir m.a. að gert sé ráð fyrir að starfsemi Sorpu flytjist af lóðinni haustið 2025 og lóðinni skipt upp, annars vegar í opið svæði á vestari hluta lóðarinnar og hins vegar verslunar og þjónustu. Því skal haldið til haga að í auglýsingunni er vísað í skýrsluna um framtíðarsýn.
Í framangreindir skýrslu um framtíðarsýn var lýst eftir aðkomu bæjarbúa og arkitekta til að afla hugmynda um hvernig mætti nýta reitinn þegar tímabært er að flytja Sorpu þaðan. Með þessar auglýsingu er leitað beint til fjárfesta. Skautað er yfir bæjarbúa og þá sem nýta Kópavogsdalinn sér til yndisauka. Þeir fá ekki tækifærið til að koma með hugmyndir eins og lagt var til í skýrslunni. Sama er að segja um arkitekta.
Ekki verður betur séð en að búið sé að ákveða að fela fjárfestum með djúpa vasa deiliskipulagsgerðina. Í textanum segir „Innan þess tímaramma [tveggja ára frá úthlutun] skal lóðarvilyrðishafi vinna að tillögu að nýju deiliskipulagi fyrir lóðina.“
Bæjarbúar hafa enn einu sinni gleymst hjá meirihlutanum í bæjarstjórn Kópavogs en fjárfestar settir í öndvegi. Samkvæmt lögum eiga íbúarnir að vera í forgrunn í skipulagsmálum og ekki má útvista ábyrgð.
Reynslan af því að yfirfæra skipulagsgerðina til lóðarhafa og fjárfesta er almennt ekki góð. Hefur meirihlutinn í bæjarstjórn ekkert lært af þeirri sorgarsögu? Það er ástæða til að óttast að fjármagnið og gróðavonin fái enn einu sinni að ráða för. Sporin sem stigin hafa verið í þessum efnum af meirihlutanum í bæjarstjórn hræða. Við verðum að standa vaktina og veita aðhald, krefjast þess að íbúar séu í forgrunni í skipulagsmálum. Vinir Kópavogs munu gera það.