Kópavogsbær, Strætó og rafskútuleigurnar Hopp og Zolo hafa tekið höndum saman til að til að hvetja fólk til umhverfisvæns ferðamáta og um leið bæta lagningu rafskúta í bænum.
Frá og með 12. júní 2024, er veittur afsláttur af leigu rafskúta ef þeim er lagt á skilgreindum svæðum við biðstöðvar Strætó með það að leiðarljósi að hvetja notendur til að leggja rafskútunum þar sem þær eru ekki fyrir gangandi og akandi. Sleppisvæðin verða sýnileg inn í appi rafskútuleiganna.
Kópavogsbær er fyrsta sveitarfélagið sem fer þessa leið og er markmiðið að fjölga slíkum stæðum í bænum þannig að þau verði einnig við sundlaugar, íþróttamannvirki og önnur vinsæl svæði sem hægt er að greina út frá upplýsingum frá rafskútuleigum.
„Það er virkilega gaman að Kópavogsbær sé fyrst sveitarfélaga á Íslandi að stíga þessi skref. Með þessu hvetjum við fólk til að tengja saman tvo umhverfisvæna fararmáta, Strætó og rafskútur og stuðlum í leiðinni að því að rafskútur séu ekki á víð og dreif um bæinn,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri.
Strætó og rafskútuleigurnar eru þegar í góðu samstarfi þar sem staðsetningar rafskúta á strætókortinu er sýnileg inn á vef Strætó og í Klappinu. Hægt er að smella á viðkomandi rafskútu á kortinu og þá sést hvaða fyrirtæki hjólið tilheyrir og hver hleðslan er. Sé smellt á hlekkinn er farið inn á rafskútuna í viðkomandi appi og þannig hægt að taka hana frá eða á leigu strax.