Það hefur varla farið framhjá neinum að bæði meistaraflokkur kvenna og karla hjá Breiðablik eru Íslandsmeistarar í knattspyrnu. Hjá körlunum tryggði Breiðablik sér titilinn í sannkölluðum úrslitaleik gegn Víkingi R. þar sem Blikar unnu sanngjarnan 0-3 sigur. Liðin voru jöfn á stigum fyrir leikinn. Æsispennandi lokaleikur við Val, sem lauk með markalausu jafnfefli tryggði meistarflokki kvenna Íslandsmeistaratitilinn og brutust út gífurleg fagnaðarlæti þegar lokaflautið gall. Að baki þessum árangri liggur gríðarleg vinna leikmanna, þjálfara, starfsfólks, sjálfboðaliða, stuðningsmanna og öllum þeim sem að liðinu koma. Við spurðum Flosa Eiríksson, formann knattspyrnudeildar Breiðabliks hver lykillinn væri að þessum einstaka árangri.
„Það er kannski erfitt að benda á eitthvað eitt atriði en eitt af því er öflugt yngri flokka starf til margra ára sem býr til mikið af okkar frábæru leikmönnum, aðstaða og umgjörð er alltaf að batna og við erum að reyna að auka fagmennskuna dag frá degi,“ segir Flosi. „Allt skiptir þetta miklu máli en auðvitað liggur þetta mest hjá okkar frábæru þjálfurum þeim Halldóri og Nik og leikmönnunum sjálfum. Ég held að lykilatriðið í þessu öllu hafi verið og maður skynjaði upp í stúku hversu gaman leikmönnunum finnst að spila saman fótbolta, og hversu öflug liðsheildin er hjá báðum liðum.“
Breiðablik alltaf mitt félag
Flosi var kosinn í stjórn knattspyrnudeildar Breiðabliks 2017, var fyrst ritari en tók við sem formaður 2021, það það var leitað til hans að koma í stjórn. Hann þekkir vel til í stjórnkerfi bæjarins eftir setu í bæjarstjórn. „Sjálfur hef ég aldrei æft fótbolta, kannski komið á eina eða tvær æfingar á Vallargerðisvellinum,“ segir Flosi. „Ég var í sveit oftast á sumrin en Breiðablik hefur alltaf verið mitt félag. Krakkarnir mínir höfðu flest æft fótbolta meðal annars hjá félaginu. Þá var ég uppteknari í alls konar störfum og kom ekki mikið að starfi félagsins. Það má því segja að núna sé ég að greiða þá skuld og sinna þesssum störfum fyrir unga foreldra sem hafa í nógu að snúast. Þannig virkar félagið að við leggjum fram krafta okkar eftir getu svo félagið geti boðið upp á og haldið úti sínu öfluga starfi.“
Fagleg umgjörð
Á síðustu 10 árum hefur umfang knattspyrnudeildar Breiðabliks aukist gríðarlega. Iðkendafjöldinn hefur trúlega tvöfaldast, að mati Flosa, en núna eru um 1900 börn og ungmenni sem æfa hjá deildinni. Allur aðbúnaður er til fyrirmyndar, frábærir knattspyrnuvellir til æfinga og rík áhersla lögð á fagmennsku í öllu utanumhaldi.
„Umgjörð um meistaraflokka er orðin afar góð og nálgast einhvers konar half-atvinnumanna kerfi og þar hafa verið tekið stór skref á undanförnum árum. Það er inngróið í Breiðablik og okkar DNA að hafa umgjörð um meistaraflokka eins hjá stelpum og strákum, við erum stolt af því þó vissulega sé margt ógert á þessu sviði í fótbolta almennt.“
Breiðablik eftir 10 ár
„Ef maður reynir að sjá fram í tímann þá ætlum við að halda áfram á sömu braut, vinna við nýtt gervigras er í fullum gangi við hliðina á Fífunni. Við þurfum að fá sterkari ljós til að meistaraflokkarnir geti spilað Evrópuleiki sína á heimavelli. Það þarf stærri stúku og eitt og annað. Þessi verkefni eru endalaus,“ segir Flosi.
„Fyrst og fremst sé ég fyrir mér lifandi og öflugt félag, þar sem allir iðkendur í knattspyrnu fái verkefni við sitt hæfi og fái gott veganesti út í lífið. Enn fleiri eigi möguleika að fara í atvinnumennsku og við verðum áfram þekkt sem góður stökkpallur til þess. Meistaraflokkarnir veraða áfram og ávallt í fremstu röð hér innanlands og munu ná ennþá betri árangri í Evrópu. Þeir báðir voru fyrstir íslenskra liða til að vinna sér rétt til þátttöku í riðlakeppni í Evrópu.
Fyrst og fremst vonast ég til þess að þau sem keppa undir merki Breiðabliks gangi áfram fram með því kappi, dugnaði og gleði sem einkenndi meistaraliðin 2024 og haldi áfram að vera Kópavogi, sjálfum sér og Breiðabliki til sóma. Það er góð framtíðarsýn.“