Íslandsmót unglinga var haldið í Íþróttamiðstöðinni á Hvolsvelli helgina 16.-17. mars. Mótið var vel heppnað. HK endaði með tvo Íslandsmeistaratitla undir tryggri leiðsögn Bjarna þjálfara. Benedikt Darri Malmquist varð Íslandsmeistari hnokka 11 ára og yngri. HK tók tvo efstu sætin í tvíliðakeppni pilta 13 ára og yngri. Eftir æsispennandi baráttu urðu Benedikt Darri og Sindri Þór Rúnarsson úr HK Íslandsmeistarar og Brynjar Gylfi og Jörundur Steinar úr HK fengu silfur.
Undir lok janúar var haldið Íslandsmót í flokkakeppni unglinga á Selfossi. Í flokki pilta 13 ára og yngri stóð HK uppi sem Íslandsmeistari. Þar voru saman í liði Benedikt Darri Malmquist og Sindri Þór Rúnarsson. HK átti einnig lið í 3-4 sæti. Í flokki drengja 16-18 ára var lið HK í öðru sæti.
Á Íslandsmóti öldunga þann 24 febrúar stóð Bjarni Þorgeir Bjarnason, HK uppi sem Íslandsmeistari í einliðlaleik karla 50-59 ára og tvíliðaleik karla 50-59 ára. Mariusz Rosinski og Örn Þórðarson, HK, urðu íslandsmeistarar í tvíliðaleik karla 40-49 ára. Mariusz Rosinski, HK varð í öðru sæti í einliðaleik karla 40-49 ára. Amid Derayat, HK varð í þriðja til fjórða sæti í einliðaleik karla 60-69 ára.