Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs lauk nýverið við að heimsækja alla leikskóla Kópavogs. Þegar hún tók við sem bæjarstjóri Kópavogs einsetti hún sér að heimsækja leikskólana til þess að kynna sér starfsaðstæður og starfsumhverfi þeirra.
„Ég setti mér það markmið þegar ég hóf störf sem bæjarstjóri að heimsækja alla leikskóla Kópavogs á fyrri hluta kjörtímabilsins. Mér fannst mikilvægt að fá betri innsýn í þær áskoranir sem leikskólar hafa verið að glíma við. Þessar heimsóknir voru loks kveikjan að starfshópi sem mótaði tillögur um breytingar á starfsumhverfi leikskóla sem við innleiddum síðasta haust og köllum í dag Kópavogsmódelið. Eftir að hafa heimsótt leikskólana finn ég svo sterkt hvað þessar breytingar hafa gert mikið fyrir leikskólana, gæði leikskólastarfsins er umtalsvert betra og umhverfið rólegra. Þá er klárlega eftirsóknarverðara að vinna í leikskólum Kópavogs í dag en í fyrsta skipti í áraraðir eru flestir leikskólar í Kópavogi fullmannaðir og þess vegna getum við boðið fleiri börnum leikskóladvöl en áður. Einn liður í breytingunum var að draga úr álagi og veikindum en börn voru aldrei send heim sökum manneklu í vetur en til samanburður voru 212 dagar í fyrra sem við þurftum að grípa til slíkra ráðstafana. Markmið breytinganna var búa til umhverfi sem veitir framúrskarandi leikskólaþjónustu og ég sé ekki betur en að það hafi tekist.“ segir Ásdís.
Fyrir ári voru gerðar breytingar í leikskólunum til þess að bæta starfsumhverfi og starfsaðstæður í leikskólunum með það að markmiði að draga úr viðvarandi manneklu. Tillögur að breytingunum voru afrakstur starfshóps sem var skipaður fulltrúum foreldra, leikskóla, stéttarfélaga, menntasviðs og bæjarstjórnar. Meðal þess sem var breytt var að 30 tíma dvöl varð gjaldfrjáls, sveigjanleiki var aukinn í dvalartíma barna samfara því sem ný gjaldskrá var innleidd. Í dag hafa tæplega 46% foreldra stytt dvalartíma barna sinna, þar af eru um 20% barna i 6 tíma vistun. Þessar breytingar hafa auðveldað skipulag leikskólastarfsins, börnum og foreldrum til hagsbóta. Vel hefur gengið að ráða í lausar stöður í leikskólunum fyrir haustið. Frá því breytingarnar tóku gildi hefur jafnframt aldrei þurft að loka leikskólum vegna veikinda og manneklu.
„Það var ótrúlega skemmtilegt að ræða við börnin sem hafa til dæmis spurt mig hvort ég sé bæjarstjóri Latabæjar og gangi um með möppur alla daga og skipi byggingarmönnum fyrir. Þessar heimsóknir hafa verið frábærar og vel tekið á móti mér á öllum stöðum. Nú þegar reynsla er komin á Kópavogsmódelið og árangurinn sýnilegur upplifi ég meiri ánægju með breytingarnar meðal foreldra. Þá er auðvitað frábært að sjá önnur sveitarfélög innleiða svipaðar breytingar. Kópavogsmódelið er klárlega að virka.“ segir Ásdís.