Börn úr öllum skólum í Kópavogi komu saman nýverið á árlegu Barnaþingi. Hver skóli sendi tvo fulltrúa auk fulltrúa ungmennaráðs þannig að um 30 börn voru saman komin til að ræða tillögur barna í Kópavogi.
Í aðdraganda Barnaþings voru haldin Skólaþing í skólum bæjarins. Þau völdu hvert um sig tillögur til að ræða á Barnaþinginu, margar voru samhljóða og því voru það sjö tillögur sem voru teknar til umfjöllunar.
Strákarnir í VÆB mættu og tróðu upp í hádeginu við mikinn fögnuð áður en barnaþingmenn fengu sér hádegishressingu. Þá ávarpaði Anna Birna Snæbjörnsdóttir sviðsstjóri menntasviðs þingið og þakkaði þátttakendum fyrir sitt framlag.
Tillögur skóla á Barnaþing Kópavogs 2024 sem ræddar voru á þinginu:
- Aukin áhersla á list- og verklegt nám.
- Jafnt aðgengi fyrir alla (tryggja hjólastólaaðgengi og merkja með blindraletri í skólaumhverfinu).
- Meiri aðstoð fyrir alla nemendur (auka aðstoðarkennara).
- Fleiri vettvangsferðir/námsferðir.
- Símareglur og símalaus svæði í skólanum.
- Fartölvur í stað spjaldtölva.
- Styttri skóladag (t.d. á föstudögum) og byrja skólann seinna (t.d. 8.30 og seinna fyrir nemendur á unglingastigi).