Götuganga Virkni og vellíðan í Kópavogi fór fram mikilli veðurblíðu í dag. Gangan er nú haldin í þriðja sinn og tóku tæplega 300 þátt í göngunni sem hófst og lauk á Kópavogsvelli. Í tilefni 70 ára afmælis Kópavogsbæjar var afmælisbragur á göngunni og afmælissöngurinn sunginn áður en Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri ræsti gönguna.
Mikil stemning og gleði ríkti í Kópavogsdalnum á meðan viðburðinum stóð og eftir göngu, þegar þátttakendur gæddu sér á köku og fylgdust með verðlaunaafhendingu.



Götugangan er fyrir 60 ára og eldri og er gengin 3,4 km leið um Kópavogsdal. Keppt er í þremur aldursflokkum, 60-69, 70-79, og 80 ára og eldri.
Sigurvegari annað árið í röð í heildarúrslitum karla var Sverrir Davíð Hauksson, en hann bar einnig sigur úr bítum í fyrra. Fyrst kvenna í mark var Rannveig Traustadóttir.
Öll úrslit er að finna á timataka.net.