Starfsfólks svæðisstöðva íþróttahéraðanna hefur síðustu vikur unnið að greiningum á stöðu íþróttamála um allt land. Vinnan er komin vel á veg á höfuðborgarsvæðinu. Samhliða því hefur verið fundað með starfsfólki allra íþróttahéraða og haldið erindi á vel sóttu fulltrúaráðsþingi Íþróttabandalags Hafnarfjarðar (ÍBH), formannafundi Íþróttabandalags Reykjavíkur (ÍBR) og á stjórnarfundi Ungmennasambands Kjalarnesþings (UMSK). Eftir fundina var skilað inn inn tillögum að aðgerðaráætlun fyrir höfuðborgarsvæðið.
„Við erum hrikalega spennt fyrir því sem koma skal og hlökkum til að vinna náið með höfuðborgarsvæðinu”, segja þau Íris Svavarsdóttir og Sveinn Sampsted, sem eru starfsmenn svæðisstöðvanna á höfuðborgarsvæðinu.
Svæðisstöðvarnar eru nýjung, sem Íþrótta- og Ólympísamband Íslands (ÍSÍ) og Ungmennafélag Íslands (UMFÍ) settu á laggirnar fyrr á þessu ári. Þær byggja á samþykktum af þingum beggja sambanda. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, tók vel undir tillögur íþróttahreyfingarinnar og studdi þær fjárhagslega næstu tvö árin.
Svæðisstöðvarnar eru átta talsins um allt land og eru tveir starfsmenn á hverri stöð. Hver svæðistöð styður við íþróttahéruð á sínu svæði og hjálpar þeim að innleiða stefnu íþróttahreyfingarinnar og ríkisins í íþróttamálum.
Ein af áherslum svæðisstöðvanna er að auka þátttöku barna og ungmenna í skipulögðu íþróttastarfi á Íslandi, sérstaklega börn með fatlanir, frá tekjulægri heimilum og þau sem hafa fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn.
Svæðisfulltrúarnir eru sextán talsins og dreifast jafnt á milli svæðisstöðva. Íris Svavarsdóttir og Sveinn hófu störf í ágúst og er þeirra hlutverk að styðja við ÍBH, ÍBR og UMSK.
Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um svæðisstöðvar ÍSÍ og UMFÍ á isi.is og umfi.is.