Ég verð bara að segja eins og er að ég var kominn með bullandi ofnæmi fyrir ríkisstjórninni og sennilega var ríkisstjórnin einnig kominn með alvarlegt bráðaofnæmi fyrir sjálfri sér. Já, ekkert annað en bullandi sjálfsofnæmi sem birtist í langvarandi deilum stjórnarflokkanna á öllum sviðum.
Eitt er það sem ríkisstjórn undanfarinna sjö ára hefur á engan hátt haft ofnæmi fyrir og það eru skerðingar og keðjuverkandi skerðingar. Undir þeirra stjórn stefna skerðingarnar í almannatryggingakerfinu í yfir 100 milljarða króna á ári.
Yfir 100 milljarða króna á ári hverju er það sem ríkissjóður er að spara sér með þessu fjárhagslega ofbeldis skerðingarkerfi sem almannatryggingar eru í dag og það er fé sem er tekið úr vasa eldri borgara og öryrkja.
Þetta er ekkert annað en gróft fjárhagslegt refsikerfi sem sendir veikt og aldrað fólk ekki bara í fátækt, heldur í sárafátækt. Svo verður fólk líka að átta sig á því að þó talað sé um frítekjumörk í þessu kerfi þá gilda þau oft mjög takmarkað og tekjur á einum stað geta valdið keðjuverkandi skerðingum um allt og einnig yfir í félagsbótakerfið.
Því miður er það svo að þessar skerðingagildrur eru vel faldar út um allt kerfið og það er eiginlega vonlaust fyrir veikt og aldrað fólk að varast þær. Ef einhver heldur að þetta sé einhver tilviljun eða mistök, þá getur hann gleymt því; þetta er út spekúlerað refsikerfi til að klekkja illa fjárhagslega á þeim sem eru að reyna að tóra í þessu ömurlega bútasaumaða almannatryggingakerfi.
Þess vegna segi ég að við megum ekki leyfa fjórflokkunum þ.e.a.s. Sjálfstæðisflokki, Samfylkingunni, Framsóknarflokki og Vinstri Grænum að halda áfram að viðhalda og næra þetta ömurlega bútasaumaða kerfi sem þeir hafa búið til. Keðjuverkandi skerðingarkerfi sem sendir stóran hóp af veiku og öldruðu fólki ekki bara í fátækt heldur í sárafátækt.
Við verðum að breyta til. Við verðum að fá ríkisstjórn sem sér til þess að ekki verður lengur koma svona fram við þá sem eru veikir og hvað þá eldri borgarana okkar sem hafa byggt upp okkar ríka land.
Að hindra fólk í að vinna með fjárhagslegum skerðingum er heimska af verstu gerð. Leyfum öryrkjum að vinna án skerðingar í tvö ár og þá eigum að leyfa þeim eldri borgurum að vinna skerðingar laust sem það vilja, því við það borga þau útsvar og tekjuskatt.
Flokkur fólksins segir fólkið fyrst og svo allt hitt.