Infrarauðar saunur og yfirbyggðir stigar í rennibrautir beggja sundlauga Kópavogs, vélfryst skautasvell í Kópavogsdal, bleikir bekkir til minningar um Bryndísi Klöru Birgisdóttur, aðstaða til sjósunds á Kársnesi og endurnýjun og stækkun á leiksvæði við Menningarhúsin er meðal þess sem íbúar Kópavogs völdu áfram í kosningum í verkefninu Okkar Kópavogur 2024-2025.
Rafrænar kosningar í verkefninu hófust þann 23. janúar síðastliðinn og lauk á hádegi þann 4. febrúar. Á kjörskrá voru 34.982 íbúar og alls kusu 3540 íbúar, eða 10,1% kjósenda.
Kópavogur hefur hlotið viðurkenningu UNICEF sem barnvænt sveitarfélag og var ungmennum fæddum árið 2011 og eldri boðið að taka þátt í kosningum. Ungmennin þurftu rafræn skilríki til að kjósa.
Alls komust 15 hugmyndir af samtals 67 áfram í kosningunni. Allt að 340 milljónum verður varið í framkvæmdirnar árin 2025-2027.
Verkefni sem voru valin
- Sauna í Sundlaug Kópavogs
- Vélfryst skautasvell í Kópavogsdal
- Aðstaða til sjósunds á Kársnesi
- Kópavogsdalur – jóla, skammdegislýsing
- Bætti lýsing við gangbrautir
- Leiksvæði við Menningarhúsin – endurnýjun og stækkun
- Útivistarsvæði – ávaxtatré og berjarunnar
- Sundlaug Kópavogs – yfirbyggður stigi við rennibraut
- Minningarbekkir um Bryndísi Klöru
- Infrarauð sauna í Salalaug
- Salalaug – yfirbyggður stigi við rennibraut
- Sauna í Salalaug
- Arnarnesvegur við Rjúpnasali – planta trjágróðri í mön
- Kórinn – göngustígur að Þingum