Verkefnið Kveikjum neistann verður innleitt í 1. og 2. bekk Lindaskóla á næsta ári og var undirritaður samningur þess efnis nýverið af Ásdísi Kristjánsdóttur bæjarstjóra Kópavogs, Margréti Ármann skólastjóra Lindaskóla og Helga Rúnari Óskarssyni stjórnarformanni Rannsóknarseturs um menntun og hugarfar.
Áherslur verkefnisins snúa að læsi, stærðfræði, náttúrufræði, hreyfingu og hugarfari nemenda og tengjast þróun á kennsluháttum, kennsluefni, starfsþróun og ráðgjöf.
„Það verður mjög áhugavert að fylgjast með árangri nemenda í kjölfar nýrra kennsluhátta í anda verkefnisins Kveikjum neistann. Vestmannaeyjar stigu skrefið fyrir nokkrum árum og sá árangur er þegar sýnilegur og hefur vakið athygli. Við hjá Kópavogsbæ höfum lagt áherslu á að vera framarlega í skólaþróun og þátttaka í verkefninu er svo sannarlega í samræmi við það.“ segir Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri.
Unnið var í samræmi við hugmyndafræði verkefnisins í 1.bekk í Lindaskóla í vetur og var stundatöflum 1. bekkjar breytt í tengslum við það. Allir dagar hófust á hreyfingu og ýmis fóru fóru kennarar með nemendum sínum út eða nemendur fóru í íþróttir. Þá voru þjálfunartímar í stöfum og eða lestri alla daga vikunnar og svokallaðir ástríðutímar þrjá daga vikunnar en í þeim velja börnin sjálf viðfangsefni úr ákveðnum möguleikum.
Í verkefninu Kveikjum neistann er unnið markvisst að því að auka úthald nemenda í námi og þjálfa seiglu og þrautseigju í námi og leik þannig að þau eigi auðveldara með að takast á við hindranir.
„Við í Lindaskóla ákváðum að fara af stað með þetta verkefni þar sem þetta er ein leið til að bregðast við slöku gengi PISA og farið er eftir kenningum fremstu fræðimanna í menntavísindum. Kennarar sem hafa komið að verkefninu í vetur eru mjög ánægðir með útkomuna og eru allir nemendur í 1.bekk orðin læsir sem er frábær árangur. Við erum því alsæl með að Kópavogsbær sé búinn að stökkva á vagninn með okkur og styðja okkur til að halda ótrauð áfram með verkefnið,“ sagði Margrét Ármann skólastjóri Lindaskóla við tækifærið.
Hugmyndasmiður Kveikjum neistann er Hermundur Sigmundsson prófessor við Háskóla Íslands. Í tengslum við innleiðinguna verður fylgst með árangri og líðan nemenda í Lindaskóla.