Agnes Ársælsdóttir er myndlistarmaður og sýningarstjóri Hamraborgarhátíðarinnar í ár. Agnes útskrifaðist með BA gráðu frá Listaháskóla Íslands árið 2015 en stundar nú nám í sýningastjórnun við Háskóla Íslands. Agnes sýndi verk sín á fyrstu Hamraborg Festival árið 2021 ásamt Önnu Andreu Winther og Svanhildi Höllu Haraldsdóttur í Midpunkt. Út frá starfi listamanna í Midpunkt, sem var starfrækt í Hamraborg 22 frá árinu 2018 – 2021 spratt Hamraborg Festival.
Kópavogsbúi í húð og hár
Agnes er alin upp í Kópavogi; gekk í Snælandsskóla, æfði fótbolta með HK, stundaði nám við Tónlistarskóla Kópavogs og vann nokkur sumur í Skapandi sumarstörfum í Molanum og er því mjög kunnug Hamraborg og svæðinu þar nálægt. „Það er ótrúlega merkilegt að fá að starfa við sýningargerð í hverfi sem var mér svo kært í æsku,” segir Agnes. „Þrátt fyrir það er ég alltaf að sjá nýjar hlilðar á þessum magnaða miðbæ sem Hamraborgin er. Sýningarnar á Hamraborg Festival eru settar upp í rýmum sem vísa til fjölbreytileikans í Hamraborg, allt frá Menningarhúsunum yfir í almenningsrýmið og rekstrareiningar hverfisins.“
Góð aðsókn í fyrra
Ásamt Agnesi er hátíðinni stjórnað af grafíska hönnuðinum Sveini Snæ Kristjánssyni og myndlistarmanninum og sýningarstjóranum Jo Pawlowska.
„Aðsóknin var mjög mikil í fyrra, þökk sé fjölbreytts úrvals viðburða. Þeirra á meðal var japanski gjörningahópurinn Onirisme Collective sem bauð í gistipartý á Gerðasafni, pönk ganga Dr. Gunna um Hamraborgarsvæðið og ógleymanlegir tónleikar Fræbbblanna á Café Catalina. Gestir geta búist við frábæru veisluhaldi í ár en áherslan veður er á samsköpun, samvinnu og sameiginlega drauma.“
Hátíðin hlaut veglegan styrk frá Kópavogsbæ, Myndlistarsjóð og frá Barnamenningarhátíð. Því verður mikið úrval af viðburðum fyrir börn og fjölskyldur þeirra á laugardeginum 31. ágúst. Þar má nefna Skynjunarleiksmiðju fyrir sex mánaða til sex ára börn í hátíðartjaldinu, trúðasýninguna Trúðslæti á Listatúninu, sögu- og föndurstund með prinsessum á Bókasafni Kópavogs og brúðugerðarsmiðua í hátíðartjaldinu. Einnig verður boðið upp á raftónlistarveislu á Catalinu 31. ágúst klukkan 20:00 – 2:00 þar sem fram koma MSEA, Xiupill, Ghostigital og DJ Melerito De Jeré.
Sýningar verða opnaðar fimmtudaginn 29. ágúst með athöfn á Listatúni sem gefur forsmekkinn af opnunar athöfninni sem verður haldin föstudaginn 30. ágúst á Hálsatorgi.
„Hamraborg verður breytt í lifandi tískupall þar sem samsköpun pólska fatahönnuðarins Kami Wesolowsk munu flæða um göturnar og leiða okkur á fund fríka og furðuvera. Að því loknu munum við hitta fyrir litla lúðrasveit sem færa okkur á opnun Hildar Elísu Jónsdóttur í Ygallery. Næst verður gjörningarkvöld á Gerðarsafni en kvöldinu líkur síðan á raf og rapp tónleikunum Hamraborg Supernova sem eru skipulagðir af tónlistarmönnum 200 og Fear and Love,“ segir Agnes að lokum.