Náttúrufræðistofa og Barnabókadeild taka stakkaskiptum
Rýmið sem hýsir Náttúrufræðistofu Kópavogs og barnabókadeild Bókasafnsins hefur tekið algjörum stakkaskiptum á undanförnum mánuðum og verið hannað með meiri samnýtingu í huga þar sem birta og opin rými leika stórt hlutverk. Eitt helsta aðdráttarafl rýmisins er ný grunnsýning Náttúrufræðistofu Kópavogs, Brot úr ævi jarðar, sem verður opnuð af þessu tilefni. Barnabókasafnið hefur verið hannað með náttúruna umleikis safnið í huga þar sem tækifæri gefst tilskapandi hugsunar, lestrarstunda og leikja fyrir börn og fjölskyldur.
Auk þess verður tekið í notkun smiðjurými sem mun nýtast öllum menningarhúsunum til að taka á móti hópum og skipuleggja menningarstarf og viðburði af ólíkum toga.
„Fyrir ári síðan boðuðum við nýja nálgun í menningarstarfi okkar og einn liður í því var að leggja aukna áherslu á að efla fræðslu og upplifun barna í menningarhúsum okkar. Við gerum börnum hátt undir höfði í þessu glæsilega rými þar sem gefst tækifæri til sköpunar, leiks og næðis. Tengingin sem myndast á milli Náttúrufræðistofu og Bókasafnsins er öðruvísi, spennandi og áður óþekkt framsetning á Íslandi sem ég er fullviss um að Kópavogsbúar og aðrir gestir kunna vel að meta,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs.
Hafist var handa við undirbúning breytinganna fyrir ári síðan og var meðal annars efnt til hugmyndasöfnunar meðal íbúa um nýtt sameinað rými Bókasafns og Náttúrufræðistofu.
Theresa Himmer arkitekt hefur hannað breytingarnar á húsnæðinu en sýningarteymi sýningarinnar Brot úr ævi jarðar skipa Brynhildur Pálsdóttir, Studio Studio (Arnar Freyr Guðmundsson og Birna Geirfinnsdóttir), Theresa Himmer, Hulda Margrét Birkisdóttir, Sævar Helgi Bragason, Júlía Kristín Kristinsdóttir, Cecilie Gaihede, Brynja Sveinsdóttir.