Nú líður senn að kosningum og kjördagur nálgast á ógnarhraða. Upplýsingaflæðið hefur sjaldan verið meira og loforðaflaumur dynur á okkur frá hverjum stjórnmálaflokki á fætur öðrum. Sumir lofa óljósu „plani“, aðrir óraunhæfum niðurstöðum eins og núll umsóknum um alþjóðlega vernd eða hæli og enn aðrir fela fyrirætlanir sínar á bak við fögur loforðin. Afar fáum kjósendum gefst tími til að leggjast yfir allar upplýsingar, bera þær saman, rýna í þær og mynda sér skoðun í kjölfar þess. Það ber að varast að trúa hverju orði.
Allnokkrir flokkar sem nú bjóða fram hafa aldrei átt sæti við ríkisstjórnarborðið. Þeir eru í örlítið annarri stöðu en aðrir flokkar. Það er afskaplega auðvelt að lofa öllu fögru þegar þú hefur aldrei þurft að sýna fram á raunverulegar aðgerðir, bera ábyrgð á verkum þínum eða afhjúpa fyrir hvað þú stendur þegar raunverulega á reynir.
Sjálfstæðisflokkurinn, í krafti niðurstaðna kosninga, hefur aftur á móti oft verið í ríkisstjórn. Þar hafa fulltrúar flokksins gegnt mikilvægum embættum og unnið að framþróun og farsæld þess samfélags sem við kjósum að búa í. Í gegnum árin hafa þessir fulltrúar verið margir, þeir hafa komið og farið en grunngildi flokksins hafa ávallt verið þau sömu, þ.e. að frelsi einstaklingsins til athafna, skoðana og öflunar lífsviðurværis eigi að vera í hávegum höfð. Að mati undirritaðs eru grunngildi flokksins lykilforsenda þeirrar framþróunar og farsældar sem hefur átt sér stað í samfélaginu frá stofnun lýðveldisins. Flestir vita fyrir hvað flokkurinn stendur og á hverju flokkurinn hefur byggt. Sá grunnur stendur föstum fótum og hefur aldrei átt betur við. Sá grunnur mun leiðar okkur til enn meiri farsældar og stöðugleika og sá stöðugleiki mun skila sér í auknum lífsgæðum okkar allra.