Lið Skákdeildar Breiðabliks náði þeim árangri nú nýverið að komast aftur upp í úrvalsdeild Íslandsmóts skákfélaga þar sem sex lið keppa. Meistaraflokksráð Skákdeildar Breiðabliks settist þá niður til að útbúa fimm ára stefnumörkun og áætlun fyrir unga og öfluga skákmenn. Meðal áhersluatriða félagsins er að senda lið árlega á EM félagsliða, eiga lið í úrvalsdeildinni, halda félagslega sterkum hóp og styrkja hópinn til ferða á alþjóðleg skákmót. Við Kópavogsbúar eignuðumst í fyrra stórmeistara og Íslandsmeistara í skák. Vignir Vatnar Stefánsson náði þeim árangri og var í janúar s.l. kjörinn Íþróttamaður Kópavogs sem þykir einstakt í öflugum íþróttabæ. Auk hans er núna breiður hópur ungra skákmanna (U25) í Kópavogi sem smátt og smátt eru að yfirtaka skáksenuna á Íslandi. Í dag telur U25 hópurinn tólf iðkendur og fer stækkandi. Skákdeild Breiðabliks er á sínu tólfta ári, stofnuð haustið 2012. Þá var 2003 árgangurinn, sem núna er kjarninn í meistaraflokksliði deildarinnar, níu ára gamlir. Í dag eru þeir á 21.aldursárinu og gleðilegt að sjá hve breiður og öflugur hópurinn er. Þeir eru mjög góðar fyrirmyndir fyrir yngri iðkendur sem stefna hátt. Framtíðin er björt fyrir Skákdeild Breiðabliks og það er gott að tefla í Kópavogi.
Allur réttur áskilinn. Kópavogsblaðið slf. 2024.