Ungmenni funduðu með bæjarstjórn

Lögðu til styttingu skóladags, aðstoð við heimanám og aukið öryggi á bílastæðum

Bæjarstjórn Kópavogsbæjar fundaði með fulltrúum ungmennaráðs bæjarins og fulltrúum grunnskólabarna Kópavogsbæjar þriðjudaginn 28.maí.

Fulltrúar grunnskólabarna kallaðir barnaþingmenn mættu til fundarins með sjö tillögur sem eru afrakstur skólaþinga í grunnskólum bæjarins og Barnaþings sem haldið var í mars síðastliðnum. Barnaþing vann úr tillögunum og setti í umsögn og kosningu meðal barna bæjarins. Þá kynntu fulltrúar ungmennaráðs fjórar tillögur sem eru afrakstur ungmennaþings.

Meðal tillagna barnaþingmanna var að stytta skóladaginn, fara í fleiri vettvangsferðir í skólum bæjarins og að boðið verði upp á meiri aðstoð í heimanámi fyrir alla nemendur en þessar þrjár tillögur nutu mestrar hylli í nemendakönnun. Aðrar tillögur voru aukin áhersla á listir og verklegt nám, jafnt aðgengi, símareglur og fartölvur í stað spjaldtölva.

Fulltrúar ungmennaráðs lögðu til betri aðstöðu og viðhald sparkvalla, bætta vellíðan nemanda með aukinni fræðslu, öryggi á bílastæðum og meiri flokkun.

Bæjarfulltrúar fögnuðu tækifærinu til að funda með börnum og ungmennum og voru til svara eftir að hver og ein tillaga hafði verið borin upp. Tillögurnar verða svo settar í farveg innan sveitarfélagsins. 

Umræðan

Fleiri fréttir

Ryki slegið í augu bæjarbúa

Aðsent Bæjarstjórinn í Kópavogi sendi frá sér fréttatilkynningu um óstaðfest sex mánaða uppgjör sveitarfélagsins. Hughrifin af fréttatilkynningunni eru að hún ein hafi skilað hundruðum milljóna króna í plús vegna hagræðingar