Síðasta haust boðaði Kópavogsbær breytta stefnu og nýja hugsun í leikskólamálum með það að markmiði að styrkja starfsumhverfi leikskóla og auka stöðugleika í þjónustu við barnafjölskyldur.
Í grunninn er verið að bjóða uppá 6 klukkustunda gjaldfrjálsa leikskólavist og aukinn sveigjanleika í dvalartíma barna. Fyrst og fremst var markmið breytinga að draga úr viðvarandi mönnunarvanda í leikskólum, draga úr álagi og veikindum, skapa vænlegt og rólegra umhverfi fyrir börnin okkar og efla gæði faglega starfsins.
Nú, þegar um hálft ár er liðið og reynsla komin á Kópavogsmódelið, er vert að skoða árangurinn. Ef við berum saman stöðuna í dag og fyrir ári síðan kemur m.a. eftirfarandi í ljós:
- Ekki hefur þurft að loka leikskóla vegna manneklu frá því breytingarnar tóku gildi. Til samanburðar voru 212 lokunardagar á síðasta skólaári.
- Flestir leikskólar eru fullmannaðir og fleiri börn fá leikskólapláss.
- 46% foreldra hafa stytt dvalartíma barna. Meðaldvalartími hefur farið úr 8,1 klst. í 7,5 klst.
- Styttri dvalartími hefur dregið úr áreiti og álagi á bæði börn og starfsfólk.
- Í lok dags er umhverfið rólegra og hin svokallaði „úlfatími“ er ekki lengur hluti af daglegri rútínu.
Það er fátt fullkomið í þessum heimi og ég skal fúslega viðurkenna að þessar breytingar eru það ekki heldur. Eðlilega heyrðum við gagnrýni foreldra á breytingarnar og viðbúið enda um kerfisbreytingu að ræða sem heimilin þurftu að aðlagast. Þá skil ég vel þau heimili sem eiga erfiðara með að nýta sér sveigjanleikann til að stytta dvalartíma, en eftir sem áður blasa þessi jákvæðu áhrif við og við upplifum ekki annað en að börnunum líði betur í breyttu umhverfi. Þessi árangur hvetur okkur til dáða.
Börnin í fyrsta sæti
Frá upphafi töldum við mikilvægt að meta áhrif breytinga út frá líðan barna og hver áhrifin eru á skipulag fjölskyldunnar. Samráðsáætlun var samþykkt samhliða breytingum og eitt af því sem fólst í þeirri áætlun var að gera reglulega foreldrakönnun. Sú fyrsta var gerð í desember, nokkrum mánuðum eftir að breytingarnar tóku gildi. Sú könnun leiddi í ljós að tekjulægri heimili eru almennt ánægð með breytingarnar og líklegri til þess að nýta sér sveigjanlegri og styttri dvalartíma. Þá leiddi könnunin í ljós að meirihluti foreldra telur að sveigjanlegur dvalartími hafi jákvæð áhrif á skipulag fjölskyldunnar.
Djúpstæður mönnunarvandi hefur fengið að viðgangast í leikskólakerfinu í alltof langan tíma sem hefur komi niður á börnum og foreldrum í formi lakari leikskólaþjónustu. Vandi sem einskorðast ekki við Kópavogsbæ heldur er þekktur um allt land. Frá því Kópavogsbær steig þessi mikilvægu skref hafa önnur sveitarfélög fylgt í kjölfarið sem er verulega ánægjulegt og endurspeglar þá stöðu sem upp var komin. Ég er stolt af því að Kópavogsbær þorði að ráðast í kerfisbreytingar á leikskólaumhverfinu til að tryggja stöðugleika í þjónustu leikskóla, bæta faglega starfið og síðast en ekki síst tryggja betri líðan barna í samfélaginu!