Fyrir réttu ári síðan ákvað bæjarstjórn að ráðast í algjöra endurhönnun á rýminu sem hýsir Náttúrufræðistofu og barnabókadeild Bókasafns Kópavogs. Nú er komið að opnun þessa glæsilega rýmis þar sem saman koma í einum stað glæný sýning á undraheimi úr safneign Náttúrufræðistofu Kópavogs og skapandi les- og leikrými í barnabókadeildinni sem býður upp á ótal möguleika fyrir börn og fjölskyldur.
Auk þess er í rýminu glæsilegt smiðjurými sem mun nýtast öllum menningarhúsunum til að taka á móti hópum og skipuleggja menningarstarf og viðburði af ólíkum toga. Þessi miðstöð menningar og vísinda er einstök ef litið er til samlegðar alls þess glæsilega menningarstarfs sem fram fer í Kópavogi og þess vegna er vel við hæfi að færa Kópavogsbúum hana á afmælisdegi bæjarins.
Sérstaklega hefur vel tekist til með hönnun safnsins og vandað vel til verksins enda viðbúið að bæjarbúar munu venja komur sínar oft í þessar glæsilegu vistarverur menningar og vísinda. Birta og litagleði flæðir um rýmið og alltaf er hægt að uppgötva eitthvað nýtt í hverri heimsókn því til stendur að bæta við sýningu og upplifun gesta jafnt og þétt.