Börn í 1.bekk í Kópavogi taka um þessar mundir þátt í prófun á íslenskri staðfærslu Graphogame sem er finnskur lestrarleikur. Fyrsta skrefið í prófuninni var lestrarpróf sem öll börn í 1.bekk tóku en í framhaldinu nota börn í fimm skólum lestrarleikinn í sínu námi en í öðrum fjórum skólum verður lestrarkennsla í 1.bekk með hefðbundnum hætti. Að loknu prófunartímabili verður önnur mæling og þá í framhaldi hægt að meta árangur af notkun leiksins.
Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogi, Orri Hauksson, forstjóri Símans og Vésteinn Gauti Hauksson hjá Billboard ehf. litu á dögunum við í heimsókn í Kópavogsskóla og hittu hressa krakka í fyrsta bekk. Börnin voru með heyrnartól sem þau nýta í leiknum en þau voru gjöf frá Símanum sem er einn af bakhjörlum verkefnisins.
„Það er spennandi fyrir okkur í Kópavogi að fá að taka þátt í þessari prófun á staðfærslu leiksins sem hefur unnið til verðlauna og skilað árangri í Finnlandi. Lestrarfærni er grunnundirstaða í öllu námi þannig að til mikils er að vinna,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri.
Síminn hefur um nokkurra ára skeið forgangsraðað máltækni og íslensku sjónvarpi fyrir börn og fullorðna sem áherslum fyrirtækisins í sjálfbærni. Við erum því himinlifandi að okkar nýja góða dótturfélag Billboard hafi átt frumkvæði að þessu góða lestrarverkefni með Kópavogsbæ. Það að geta lesið íslenskt mál er lykill að samfélagslegri virkni á Íslandi,” segir Orri Hauksson forstjóri Símans.
Í leiknum er áhersla lögð á tengsl bókstafs og hljóðs en hann var upphaflega hannaður með þarfir lesblindra í huga. Áhersla er á endurtekningu og þurfa börn að svara verkefnum og ná lágmarksárangri til þess að komast í næsta borð. Íslenska útgáfan inniheldur 30 streymi sem hvert inniheldur á bilinu 8-27 borð og eru verkefnin samanlagt um 530 talsins.
Tryggvi Hjaltason og Billboard ehf., dótturfyrirtæki Símans, standa saman að útgáfu tölvuleiksins Graphogame í íslenskri útgáfu sem verður gjaldfrjáls í fimm ár. Aðrir bakhjarlar verkefnisins auk Kópavogsbæjar eru Samstök atvinnulífsins.