Nýtt áfangaheimili


Aðalsteinn Sigfússon sviðsstjóri velferðarsviðs Kópavogs, Theodóra S. Þorsteinsdóttir formaður bæjarráðs, Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri, Vörður L. Traustason framkvæmdastjóri Samhjálpar, Guðmundur Gísli Geirdal bæjarfulltrúi og Rannveig María Þorsteinsdóttir deildarstjóri ráðgjafa- og íbúðadeildar.

Kópavogsbær og Samhjálp hafa undirritað samning um rekstur nýs áfangaheimilis að Nýbýlavegi 30. Á heimilinu fá íbúar einstaklingsmiðaða þjónustu sem felur í sér stuðning, leiðsögn, kennslu og eftirfylgd í daglegu lífi. Langtíma makmiðið er að íbúar auki færni sína til sjáflstæðrar búsetu.

„Áfangaheimilið er mikilvæg viðbót við þá þjónustu sem  við veitum í Kópavogsbæ og gefur einstaklingum sem glíma við vanda af ólíkum toga nýtt tækifæri,“ segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs.

Þjónusta áfangaheimilisins verður einstaklingsmiðuð og áhersla lögð á að upplýsa íbúa um þá þjónustu sem í boði er og ætla má að nýtist viðkomandi. Átta einstaklingar geta búið á heimilinu á hverjum tíma.
Samstarf verður við velferðarsvið Kópavogsbæjar um málefni íbúa og gerð einstaklingsáætlana auk þess sem faglegur stuðningur og þjónusta verður sóttur til velferðarsviðs eða annarra fagaðila í samráði við velferðarsvið.

Stefnt er að því að áfangaheimilið opni í desember.